Duftreitir
Umhverfisvænn kostur
Hjá Kirkjugörðum Reykjavíkur eru nokkrir grafreitir sérstaklega fyrir duftker. Rétt er að benda á að duftker má jarða í eldri gröfum að fengnu leyfi vanda- og umsjónarmanna viðkomandi leiða. Við bestu aðstæður er hægt að jarðsetja allt að tíu duftker í eina gröf. Með því að jarða duftker í eldri leiðum er stuðlað að áframhaldandi nýtingu garðanna.
Sólland
– í Fossvogi
Sólland í Fossvogi er stærsti grafreitur landsins sem eingöngu er hannaður fyrir dufker. Garðurinn var vígður í október 2009 og er um þrír hektarar að stærð. Þar er rými fyrir um þrjátíu þúsund duftker. Vökumaður garðsins er Ásbjörn Björnsson, fyrrverandi forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma en duftker hans var fyrsta kerið sem jarðsett var í garðinum.
Duftgarðurinn í Fossvogi
Fossvogur
Duftgarðurinn í Fossvogi var tekinn í almenna notkun 1950 tveimur árum eftir vígslu Fossvogskirkju og er hann um 0,5 hektari að stærð. Fyrsta bálför á Íslandi fór fram hinn 31. júlí 1948, þegar jarðneskar leifar dr. Gunnlaugs Claessen formanns Bálfarafélagsins voru brenndar. Duftker hans var jarðsett 2. ágúst 1948 í reit A-1-0001 og telst hann vökumaður duftgarðsins í Fossvogsgarði. Árið 1991 var byrjað á viðamikilli endurgerð duftgarðsins en hann er nú þegar fullnýttur. Sumarið 1994 hófst vinna við gerð duftreits fyrir fóstur í sunnanverðum garðinum og var hann vígður 16. september 1994
Duftreitur í Gufunesgarði
Gufunes
Duftgarðurinn í Gufunesgarði var tekinn í notkun árið 2000. Hann rúmar um 3000 duftgrafir. Vökumaður garðsins er Kristín Einarsdóttir fyrrverandi þjónustufulltrúi.
Garðurinn er enn í vinnslu en hann verður byggður í kringum upplýst torg með setsvæði.
Í gufunesgarði er einnig haugur fyrir duftker sem aðhyllast ásatrú og er sá haugur staðsettur í ásatrúarreitnum einnig er svæði fyrir duftker í reit sem ætlaður er þeim sem eru utan trúfélaga.
Benda má á að Gufunesgarður er garður fyrir alla óháð trúfélagi og grafa má duftker í eldri leiði í samráði og með leyfi aðstandenda.
Duftgarður í Kópavogsgarði
Kópavogur
Duftgarðurinn í Kópavogsgarði var tekinn í notkun í ágúst 2006 en hann er um 0,7 hektari að stærð. Þar er rými fyrir 5.100 duftgrafir. Vökumaður garðsins er Guðmundur Helgason fyrrverandi málarameistari og var duftker hans jarðsett í fyrstu gröfina í garðinum.
Duftker í Hólavalla- og Fossvogsgarði
Fossvogur / Vesturbær
Þrátt fyrir að ekki sé lengur rými til að jarðsetja fleiri líkkistur í Hólavallagarði við Suðurgötu í Reykjavík er enn verið að setja þar niður duftker í eldri leiði í samráði við aðstandendur og umsjónarmanna þessara leiða. Sömu sögu er að segja um Fossvogsgarð þar sem öllum leiðum hefur verið ráðstafað en þar er enn verið að jarðsetja duftker í eldri leiði.
Dreifing ösku
Allt landið
Heimilt er að dreifa ösku látinna utan kirkjugarða hafi það verið ósk hins látna hvort sem viðkomandi hefur tjáð sig um það skriflega eða með öðrum hætti. Aðeins má dreifa ösku yfir öræfi og sjó og henni má aðeins dreifa á einum stað. Ekki má setja upp merki eða auðkenna staðinn þar sem öskunni var dreift. Duftker sem ætluð eru til dreifingar ösku utan kirkjugarða eiga að vera úr niðurbrjótanlegu efni og þau á að brenna strax að lokinni dreifingu. Þegar ösku er dreift á þar til gerða reiti innan kirkjugarðs á að nota sérstök öskudreifingaker.
Til að dreifing á ösku megi fara fram þarf að sækja um leyfi hjá sýslumanni í viðkomandi umdæmi og upplýsa um staðsetningu og staðhætti þar sem fyrirhugað er að dreifa öskunni. Ef dreifa á henni á landi þarf staðsetningin að vera nokkuð nákvæm og getur afgreiðsla umsókna þá tekið nokkurn tíma ef leita þarf upplýsinga um staðhætti. Eyðublað til að sækja um leyfi til dreifingar á ösku utan kirkjugarðs má nálgast hér. Umsókn um dreifingu á ösku
Ef skilyrði og upplýsingar sem fylgja umsókn eru fullnægjandi veitir sýslumaður leyfi til dreifingar. Duftkerið er varðveitt hjá Bálstofu Íslands þar til að dreifingu öskunnar kemur. Að lokinni öskudreifingu á að skila duftkerinu til Bálstofunnar í Reykjavík til eyðingar og fylla út eyðublað sem staðfestir að dreifing öskunnar hafi farið fram.
Nánari upplýsingar um hvernig staðið skal að umsókn um dreifingu á ösku látinna er hægt að nálgast með því að hafa samband við truoglif@syslumenn.is